Björgum ferðaþjónustunni

Ferðaþjónustan er stærsta atvinnugrein þjóðarinnar.  Hlutur hennar í gjaldeyristekjum þjóðarinnar er um 40% og í tekjum ríkissjóðs um 100 milljarða kr.
20 til 30 þúsund manns starfa í einkennandi greinum ferðaþjónustu, eftir árstíðum.

Því miður eru blikur á lofti. Þetta árið hefur dregið úr fjölgun ferðamanna og á landbyggðinni hefur ferðamönnum fækkað á sumum stöðum.  Þeir ferðamenn sem enn koma vita hversu dýrt landið er og eyða minna en áður.

Helsta ástæðan fyrir bakslaginu er mjög hár og hækkandi ferðakostnaður.  Í samanburði önnur lönd er Ísland mjög dýrt og munurinn hefur verið að aukast síðustu ár vegna gengishækkunar.

Það væri gríðarlegt áfall fyrir okkur sem samfélag ef ferðamönnum fækkaði að ráði.  Því er mjög mikilvægt að bregðast við með því að lækka kostnað við Íslandsferð eftir föngum.

Af hverju er Ísland svona dýrt
Við erum fá á okkar fögru, stóru norðlægu eyju.  Samkeppni er ekki næg á sumum sviðum, vextir af lánum mun hærri en í nágrannalöndunum, matvæli mjög dýr og áfengi sömuleiðis.

Koma Costco hefur sýnt mörgum hvað alvöru samkeppni gerir fyrir neytendur og þar með ferðamenn.  Því miður skortir samkeppni á banka- og lánamarkaði og lítil von er um breytingar nema með róttækri uppstokkun.

Vextir af lánum hér eru um 2,5 % hærri en í samanburðarlöndunum.  Af 40 m.kr. láni sem ekki er óalgengt íbúðalán, eru vaxtagreiðslur því 1 milljón kr. hærri á ári.  Til að greiða eina milljón kr. þarf að hafa tvær miljónir i laun fyrir skatta.  Þetta  setur þrýsting á launahækkanir, spennir upp verð vöru og þjónustu frá fyrirtækjum og dregur úr fjárfestingagetu og þar með framlegðaraukningu sem dregur úr launagreiðslu getu o.s.frv.

Útgjöld ferðamanna samanstanda aðallega af ferðum, mat og gistingu.  Allir þessi útgjaldaliðir hafa sögulega verið háir hér miðað við önnur lönd en með 25% hækkun á gengi krónunnar undanfarin tvö ár hefur keyrt um þverbak.  Landið var dýrt en er nú orðið fokdýrt.

Hugmyndir um að setja vsk. ferðaþjónustu í almennan flokk, sem þýða að hann yrði almennt 13% hærri en í helstu nágrannalöndum, eru fráleitar því þær myndu gera okkar fokdýra land óheyrilega dýrt heim að sækja.

Hvað er til ráða?
Þó við glöð vildum getum við ekki dregið landið sunnar á hnöttinn, hækkað hitastigið um nokkrar gráður né fjölgað fólki upp í heppilegan íbúafjölda til að dreifa birgðunum, en við getum ýmislegt til að bæta stöðuna.

Vaxtagjöld fólks og fyrirtækja má lækka um 2% eða svo með því að opna á lántöku í erlendri mynt og auka samkeppni lánamarkaði, jafnvel þó við höldum í krónuna enn um sinn.  Setja mætti skilyrði um gengisvarnir sem héldi gengisáhættu innan ásættanlegra marka.  Þetta bætir lífskjör og lækkar útsöluverð vöru og þjónustu til landsmanna og ferðamanna.

Flugfargjöld til og frá landinu hafa verið að lækka undanfarin ár, með aukinni samkeppni því fleiri og fleiri félög fljúga á Keflavík.  Þessi þróun heldur vonandi áfram öllum til hagsbóta.

Matvælaverð hér eru þau hæstu í heimi vegna norðlægrar hnattstöðu og tollverndar landbúnaðarins.  Með því að fella niður tollverndina má lækka verð matvæla um 35% eða svo.  Fyrir okkur landsmenn nemur lækkunin um 100.000kr. á mann á ári.   Til mótvægis má tryggja bændum afkomu með einskonar borgaralaunum og leyfa þeim að keppa á markaði.

Áfengið telst til matvæla.  Það er mjög dýrt hér vegna hins háa áfengisgjalds sem er bara ákvörðunaratriði löggjafans og sem hann getur breytt, til hagsbóta fyrir landsmenn og aðal atvinnuveginn, ferðaþjónustuna.

Há innkaupsverð þýða að verð á veitingahúsum geta ekki verið annað en há hér þar til þau verða lækkuð og það er vel hægt að gera.

Gisting er líka dýr hér.  Algengt er að 2ja manna herbergi í Reykjavík kosti 25.000 til 45.000 kr. nóttin og verð í AirBnB útleigu eru uppsprengd. Gisting á landsbyggðinni kostar víða meira en í stórborgum erlendis.  Framboð gistingar er enn minna en eftirspurn og eðli markaðarins er að nýta sér þessa stöðu.  Hins vegar er það varasamt þegar til langs tíma er litið.

Mikilvægt er fyrir alla að hafa langtímahugsun þegar vara og þjónusta er verðlögð.  Efla þarf faglegt starf í ferðaþjónustunni meðal annars skilning á því að vara og þjónusta þarf að standa undir verðum og má ekki ofbjóða réttlætistilfinningu okkar né ferðamanna.

Gerum það sem gera þarf, við verðum
Með ofangreindum lagfæringum má lækka kostnað við Íslandsferð í kringum 30%.  Ísland verður áfram dýrt, bara ekki eins rosalega dýrt og það er núna hvað þá ef vaskurinn á ferðaþjónustuna fer í hæsta þrepið.

Þetta skilar sér til okkar íbúanna með ýmsum hætti því lífskjör batna við lægri útgjöld til daglegra þarfa.  Vel menntaða fjölhæfa unga fólkið okkar mun í framtíðinni velja sér búsetu þar sem best er að búa.  Framtíðar velsæld okkar byggir á því að slíkt fólk, sem kynnst hefur lífinu í öðrum löndum, vilji búa hér.  Við verðum að búa í haginn til að sem flestir velji Ísland.

Björgum ferðaþjónustunni, greinin eins og hún birtist í Morgunblaðinu 1.7.2017.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.