Nokkrar (hrakfalla) sögur :)

Á beislinu hjá Kidda í Dísó

Þegar ég var 6 ára í Þykkvabænum lenti ég í dráttarvélaslysi.

Það atvikaðist þannig að ég var „úti í görðum“ með mági mínum og var farið að leiðast, þegar jafnaldra mína Ása og Þráinn bar að standandi aftan á dráttarvél hjá Kidda í Dísó, pabba Ása, á leiðinni heim. Ég stökk til og fékk far með þeim.

Þannig var að það var búið að taka hlífðarbrettin af stóru afturhjólunum þannig að þau voru óvarin og við stóðum þarna þrír sex ára guttar á beilsinu og rétt náðum að halda okkur með því að halla okkur fram að sætinu.

Úlpan mín var órennd og flaxaðist í dekkið og sem reif mig með í snúningnum, tróð mér gegnum þröngt bil og niður í götu við hliðina á dekkinu.
Þar lá ég í kuðung og gat mig ekki hreyft. Kiddi tók mig í fangið og ók heim á leið. Ég var lagður á sófa í Dísukoti og kallað á pabba. Ég var svo borinn heim í Hávarðarkot á sófanum og kallað á Ólaf lækni. Hann kom en fann ekkert augjóst að mér. Áður en hann fór en sagði hann að ef eitthvað breyttist ætti að hafa samband við hann.

Mér var mál að pissa en gat ekki fyrr en um kvöldið að ég pissaði tveim blóðdropum. Þá var hringt í Ólaf og hann sagði fólkinu að fara með mig í hvelli á Landspítalann í Reykjavík. Kl. 6 um morguninn var ég skorinn og gert við þvagblöðruna.
Ég var 10 daga á sjúkrahúsinu og blaðran og skurðurinn gréru. Þegar komið var heim til Dúllu föðursystur minnar var handleggurinn bólginn og í ljós kom að ég hafði verið handleggsbrotinn síðan í slysinu. Var settur í gifs og brotið gréri.

Heimasmíðaður bogi

Eitt sinn þegar við jafnaldrar í Þykkvabænum Ási, Þráinn og ég vorum trúlega 8 ára, var mikið um að vera á Dísukotshlaðinu þegar mig bar. Þar voru margir krakkar að leika sér og Ási og Þráinn í bragganum að smíða boga. Hann var gerður úr fjöl með gati og hjólaslanga strengd yfir. Ör tálguð og vafin vír um annan endann til að bæta skriðþungann.

Spenningurinn var mikill að ná sem bestri virkni í bogann. Gatið í spýtunni þurfi að vera hæfilegt, örin bein og án kvista osfrv. Eitthvað gekk þetta brösulega.

Ég var allur að vilja gerður að hjálpa og vonaðist eftir að næsta eintak yrði smíðað fyrir mig. Ási strengdi bogann og dró örina að sér í slöngunni og skaut nokkrum sinnum út í loftið en örin var ekki nægilega bein eða gatið of þröngt, þannig að örin náði ekki langt.

Ég bað held ég Ása að snúa boganum að mér svo að ég gæti kíkt beint á móti örinni og séð hvað þyrfti að laga. Óvænt hleypti Ási þá af boganum að auganu á mér sem var rétt fyrir framan örina.

Fyrir einhverja mildi lenti örinn rétt fyrir ofan augað í augnumgjörðinni og ég slapp með sársauka og mar.

Krakkarnir sögðu Kidda pabba Ása frá þessu og það varð til þess að Kiddi setti Ása ofan í tóma súrheysgrifju þar sem hann var látinn dúsa í 3 klst. held ég.

Ég fór heim á leið og varð ekki meint af en þessi minning gerir mig enn soldið daprann og ég velti fyrir mér hvers vegna Ási gerði þetta. En við vorum bara krakkar og þetta voru bara bernskubrek og við Ási vorum vinir áfram eftir þetta.

Hér er mynd af Dísukoti. Í baksýn er hlaðan í Hávarðarkoti, bænum þar sem ég átti heima. Það sést einnig að Háteig í fjarska þar sem Klara systir mömmu átti heima og hennar fjölskylda.

Það voru ekki tré á Dísukotshlaðinu í denn, bragginn er farinn og komin kartöflugeymsla fyrir framan húsið.

Handleggsbrot og múrbrot

Eitt sinn, þegar ég var 13 ára eða svo heima í Hávarðarkoti var ég beðinn að færa burtu hrúgu af brotnum steinvegg sem hafði verið um sinn til hliðar á hlaðinu frá því einhver veggur var rifinn. Ég hafi til þess Ferguson með ámoksturstæki og traktorsvagn með lyftu. Það þurfti að færa steinana handvirkt hvern fyrir sig í ámokstursskúffuna og lyfta svo upp á vagninn.

Steinarnir voru misstórir og misþungir eins og gengur, svipað og á meðfylgjandi mynd sem ég fann á netinu.
Einn steinninn reyndist afdrifaríkur. Hann var upp í miðri hrúgunni og um það bil jafn þungur og ég mögulega gat lyft, trúlega um 70kg. Mér tókst að ná taki á hellunni og rétta mig upp en svo þurfti ég að snúa mér í 1/2 hring til að færa helluna í skúffuna. Ég hafði ekki hugsað út í hvað þetta gæti verið varasamt. Þegar ég byrjaði að snúa mér og ætlaði að lyfta vinstri fæti og færa hann aftur svo ég gæti snúið mér þá var önnur hella fyrir aftan það há að ég náði ekki upp á hana nógu fljótt og missti jafnvægið. Ég var óðara á leiðinni að detta beint aftur fyrir mig með helluna framan á mér.

Ef ég hefði dottið beint aftur á bak hefði hellan kramið mig ofan á steinahrúgunnni sem hefði verið mjög hættulegt, jafnvel banvænt. Það gafst enginn tími til að hugsa. Ég tók strax á það ráð að beita öllum kröftum til að snúa mér þannig að hellan lenti ekki ofan á mér. Það tókst með naumindum og þegar ég lenti á bakinu kom hellan niður vinstra megin við mig ofan á vinstri handleggurinn þannig að hann brotnaði. Önnur pípan í framhandleggnum small í sundur og bognaði niður á við. Ég færði steininn ofan af hendinni, stóð upp og gekk inn í hús.

Það var uppi fótur og fit. Pabbi ók með mig til læknisins á Selfossi. Hann taldi þörf á sérhæfðari þjónustu og sendi okkur „suður“ á Slysó. Þar var ég settur í gifs eftir 3ja tíma bið. Brotið gréri og varð hérumbil jafn gott, fann reyndar lengi smá til í úlnliðnum.

Nóttina eftir gistum við pabbi hjá Gunnu frænku sem þá leigði risíbúð á Skólavörðustíg. Mér varð ekki svefnsamt og læddist út um miðja sumarnóttina. Aðrir voru í fastasvefni. Þetta var í fyrsta skipt sem ég var einn á ferð í Reykjavík. Labbaði niður að höfn í birtu og góðu veðri, á mannlausum götum. Til baka aftur. Dottaði eitthvað og svo héldum við feðgarnir heima á leið í Taunusnum.

Hugsa oft til þess hvernig hefði farið ef ég hefði ekki án umhugsunar snúið mér þannig að steinninn lennti ekki á brjóstinu heldur hendinni.

Skjóni og steinveggurinn

Skjóni var viljugasti hesturinn í Hávarðarkoti og því í nokkru uppáhaldi. Hann var hins vegar taumþungur og ef hann tók á rás þá stoppaði hann ekki svo glatt. Hann var einnig soldið taugatrekktur og viðkvæmur.

Eitt haustið, ég hef líklega verið 18 ára, voru hestarnir upp í Hundalá og við fórum nokkrir/-ur að sækja þá. Við tókum með beisli en ekki hnakka. Ætluðum eiginlega að teyma þá heim, enda ekki sniðugt að fara berbakt t.d. á Skjóna því það gat verið erfitt að halda sér á baki. Svo auðvitað, þegar búið var að beisla hestana langið okkur á bak og að ríða heim. Ég bað félagana, Ása og Þráinn og ég man ekki hverjir fleiri voru með, að fara á undan, ég kæmi í rólegheimtum á eftir, því Skjóni var svo kappsamur að ef hann var í hópi með öðrum hestum vildi hann fara í kapphlaup. Hinir héldu heim á leið og þegar þeir voru komnir nokkuð áleiðis fór ég á bak og ætlaði taka fetið í rólegheitunum heim.

Þá gerðist það, sem ekki hefði átt að gerast, að vinur minn Ási kom ríðandi til baka. Honum fannst sem sagt svo gaman að hann vildi fara aðra ferð. Hann snéri við fyrir aftan mig og hleypti fram úr okkur Skjóna. Skjóni auðvitað stóðst ekki mátið og tók á sprett. Það var algerlega vonlaust fyrir mig að reyna að stöðva hann og ég hugleiddi að henda mér af baki því ég vissi að ég myndi ekki ráða við Skjóna. Hann myndi beygja þegar honum hentaði og ég gat ekki séð það fyrir né hvernig mér gengi að halda mér á baki.

Það var hins vegar ekki árennilegt að henda sér af taki í Tröðunum því það var gaddavísgriðing báðu megin. Þannig að ég hélt mér á baki og ákvað að gera mitt besta til að forðast slys. Það háttaði þannig til að í hliðinu að Hávarðarkoti var steyptur bogadreginn veggur um 1 m. á hæð og 4 m að lengd. Þegar við Skjóni nálguðumst hliðið leist mér ekki á að við næðum beygjunni og reyndi smá stund að fá hann til að spretta fram hjá og í áttina að Búð. Hann hins vegar tók ekki mark á mér. Fyrst svo var hætti ég strax að reyna fá hann til að beygja til að hann næði þá frekar beygjunni.

Skjóni beygði sem sagt á fullri ferð á síðustu stundu og rétt náði fram hjá veggnum þannig þó að fóturinn á mér varð á milli. Ég var auðvitað að reyna að halda mér á baki með því að kreppa fótinn að kviði hestsins.

Við náðum framhjá hliðvegginn en um 3 m innan við hliðið stóð kartöfluupptökuvél. Fram úr henni og að okkur stóð stöng og beisli og fleiri óárennilegrir vélarhlutar. Skjóni snarbremsaði á síðustu stundu. Ég flaug á vélina og reyndi að láta hliðina fara á undan.
Skjóni fékk sár á fótinn. Ég fékk sár á fótinn og holu framan í legginn. Ég var með ríting við beltið (í tísku þá) sem brotnaði í tvennt. Einhver eimsl voru í skrokkinn hér og þar.

Þetta hafði getað farið munn ver, til dæmis ef ég hefði lent beint framan á stönginni eða ef ég hefði dottið fram fyrri hestinn sem hefði þá getað klemmt mig á milli.
Nokkuð vel sloppið miðað við astæður, en þarna mátti ekki miklu muna.

Myndin sýnir mig á Skjóna og Sigurbjart Pálsson á Rauð. Siggi er fæddur 1960. Myndin er frá 1970. Þá er hann 10 ára og ég 15. Siggi er sonur systur minnar Hjördísar og Palla mágs míns. Við ólumst upp saman í Hávarðarkoti, sem var stórt hús. Húsið í baksýn er Sigtún þar sem Gíslína (Ína) systir og Hafsteinn mágur bjuggu með sínum börnum. Lengra frá er gamla Hábæjarkirkja, komin í niðurnýðslu. Stuttu seinna var hún rifinn. Það sést í hornið á nýju kirkjunni. Það voru deildar meiningar um það í byggðarlaginu. Nú sjá margir eftir því að sú leið var farin þó nýja kirkjan sé ágæt.

Langur trefill

Hérumbil slys – Langur trefill og óvarið drifskaft eiga ekki vel saman.

Þegar ég var unglingur, held 14 ára þá komust langir prjónaðir treflar í tísku. Ég og vinir mínir í Þykkvabænum, Ási og Þráinn og fleiri, prjónuðum okkur trefla (það eina sem ég hef prjónað og fékk auðvitað hjálp við það). Því lengri því flottari. Minn náði niður að hnjám þó honum væri brugðið að framan.

Þegar treflarnir voru tilbúnir urðum við auðvitað að klæðast þeim og sýna okkur með þá. Við gengum út á hlað í Hávarðarkoti í ágætu veðri allir með trefla, minnir mig, mjög flottir auðvitað.

Þennan dag var pabbi og mágur minn Hafsteinn að dæla úr fjósforinni. Notuð var dæla sem knúin var áfram með drifskafti úr traktor. Við gengum fram hjá þar sem allt var á fullu, dráttarvélin að snúa dælunni með drifskaftinu. Verkið gekk vel held ég, alla vega allir brosandi og sælir með verkið.

Það gat enginn séð það fyrir, en þegar ég gekk að þeim sveiflaðist trefillinn í golunni að drifskaftinu sem var hlífðarlaust og náði taki á treflinum og byrjaði að vinda hann upp á sig með ógnar hraða. Áður en nokkur gat hreyft sig vatt skaftið öllum treflinum upp á sig. Ég var svo heppinn að hnúturinn hertist ekki um hálsinn heldur losnaði og trefillinn vattst upp á skaftið.
Þetta hefði vissulega getað farið öðruvísi. Drifskaftið hefði átt auðvelt með að hálsbrjóta mig ef ekki gera mig höfðinu styttri.

Öllum var brugðið við þetta. Pabbi og Hafsteinn ætluðu bara passa að enginn kæmi nálægt drifskaftinu því vitað var að það var hættulegt. Engum datt í hug þessi banvæna blanda af treflatísku og golu, hvernig hún gat skapað stórhættu.
Drifsköft hafa tekið mörg mannslífin og stórslasað fólk. Held að enginn hafi bert drifskaft lengur. Þau eru alltaf með hlífar sem draga mjög úr slysahættu.
Hugsa stundum til þess hvernig hefði getað farið.

Þau áttu eftir að verða fleiri slysin eða nærri slysin.

Hérna er mynd af söguhetjunni 1971, 16 ára í Landsprófi á Skógaskóla.

Hérna er mynd af söguhetjunni 1971, 16 ára í Landsprófi á Skógaskóla.

Volkswagen valt hringinn en það lak ekki úr kókflöskunni.

Það hefur líklega verið sumarið 1971 að við fórum eitt sinn sem oftar á ball í Hvolnum. Hljómsveitin gæti hafa verið Trúbrot eða Ævintýri, ekki man ég það, en heimferðin varð eftirminnileg.
Ég fékk far heim með Sighvati vini mínum og kærustunni hans henni Kristíjönu sem var frá Selfossi. Fleiri voru með, Bjallan full en Kristíjana bláetrú sem ók. Þegar við vorum komin hálfa leið að Hellu eða svo kom á móti okkur drekkhlaðinn amerískur kaggi á ógnarhraða og rásaði á veginum kanta má milli. Ég man ekki hvort Kristíjönu tókst að hægja ferðina en við vorum vel okkar megin á veginum. Drossían hins vegar þaut á móti okkur og straukst við Bjölluna og það kom högg á okkur.
Bjallan lyftist upp að aftan og fór stjórnlaust út af öfugum vegarhelmingi út fyrir veg og valt hring án þess að toppurinn kæmi niður.
Ég var með kókflösku í hendinni með blandi í og setti fingur í stútinn til að ekki læki úr henni. Það gerðist heldur ekki.
Við lentum á hjólunum öll ómeidd en skellkuð, sérstaklega eðlilega Kristíana sem hafði ekið og var bláedrú trúlega á bíl foreldra sinna.
Eftir á var talið að það hafi sprungið á kagganum og þess vegna rásaði hann. Þegar hann small utan í okkur kræktist framhjól hans í afturhjólið hjá okkur og þess vegna flugum við upp að aftan.
Þarna mátti ekki miklu muna að áreksturinn hefði orðið harðari og slys orðið á fólki.
Myndin er af Sighvati Hafsteinssyni heitnum vini mínum, hæfileikamanni sem lést aðeins 55 ára úr kviðkrabba, Ása vini og mér, líklega um jólin 1972, við Ási þá 17 Ára en Sighvatur 19, allir að reykja auðvitað.
Skeggið gæti minnt á mikilvægi skimana eftir ristilkrabba. Ég hef farið amk. 2x og hvet aðra til þess sama.

Þegar Skjóni fór kollhnís

Unnsteinn Tómasson heitir maður sem var mörg sumur hjá afa sínum Óskari í Hábæ í Þykkvabæ. Unnsteinn er nokkrum árum eldri en ég og sérlega góður hestamaður, svo töfrum líkist.
Eitt sumarið ákvað Unnsteinn að reka um 30 hesta stóð sem hann hélt í Hábæ upp á hestamannamót að Murneyrum sem eru rétt fyrir norðan Þjórsártún, vestan megin við ána. Við vorum í nokkrum samskiptum þetta sumar og hann bauð mér að koma með, þurfti í raun hjálp með stóðið.
Það var lagt af stað í frá Hábæ að morgni dags og stefnt vestur í Háfshverfi og þaðan farið upp með Þjórsá að Sandhólaferju og áfram upp eftir.
Þegar við vorum komnir fram hjá Háfshverfinu og stefndum á Sandhólaferju komum við að hliði sem hrossin þurftu að fara í gegn um. Það var þröngt og við hlið rörahliðs sem hrossin voru eðlilega hrædd við. Unnsteinn hafði farið á undan gegnum hliðið til að sýna hrossunum hvert átti að fara en ég rak á eftir. Ég var á Skjóna, sem var stífur í taumi eins og venjulega og lét ekki vel að stjórn.
Hrossin stukku til hliðar, vildu ekki fara gegnum hliðið. Ég var orðinn þreyttur á því hversu Skjóni var taumstífur og hugsaði honum gott til glóðarinnar.
Það var mjög stórþýft þar sem hrossin stukku til hliðar og þar sem við Skjóni fórum á eftir til að komast fyrir hrossin til að snúa þeim að hliðnu. Skjóni lét lítt að stjórn sem fyrr og ég þreyttur að halda í tauminn og ákvað skyndilega að leyfa honum að hafa sinn gang, losaði um tauminn og sló í kviðinn.
Þýfið var með ca. 40 cm háum þúfum og erfitt fyrir klárinn að stökka yfir það með allan mig á bakinu, þannig ég hélt fyrst að e.t.v. myndi hann róast og láta að stjórn.
Ég sá fljótlega að þetta gat verið hættulegt ef Skjóni myndi detta og tók því fæturna úr ístöðunum. Það var eins gott því stuttu síðar kom Skjóni ekki fyrir sig fótunum og datt fram fyrir sig á allri þeirri ferð sem þessi kröftugi klár komst áfram eftir þýfinu.
Ég flaug fram af honum og náði að bregða fyrir mig höndunum á þúfu sem þar var, eins og þegar maður gerir þegar stokkið er yfir hest í leikfimi og kastaði mér áfram um rúman meter eða svo.
Það skipti engum togum að Skjóni kom á eftir mér í kollhnís og skall með sinn 450 kg. bakhluta á bakinu á þúfunni sem ég hafi notað til að kasta mér áfram.
Við stóðum báðir upp ómeiddir en nokkuð skellkaðir og héldum áfram ferðinni upp með Þjórsá.
Við fengum að gista hjá Kalla í Þjórsártúni og að geyma stóðið á túninu þar um nóttina.
Í morgunroðann var lagt af stað og stóðið rekið yfir Þjórsárbrú og upp með ánni vestan megin í átt að Murneyrum.
Á leiðinni reyndi ég mig við að sitja góðan þýðan töltara sem Unnsteinn átti. Hann hafði þann galla að hann hafði sérstakan vilja og lag að kasta fólki af baki, nema Unnsteini sem hann haggaði ekki. Hann kastað mér líklega 10 sinnum af baki þennan dag en ég fór alltaf aftur á bak til að reyna að ná að sitja, en það tókst ekki. Ég varð að gefast upp og skipta um klár. Við náðum svo á Murneyrar síðar um daginn.
Þetta er líklega um 30 km. falleg leið upp með Þjórsá. Þetta var skemmtilegt en þreytandi. Læt fylgja nokkrar myndir af leiðnni.

Bronkóinn og byssan

Eitt sinn, líklega 1972, bauð Bói í Miðkoti Sighvarti vini okkar og mér með í bíltúr á Bronkóinum sínum. Með í ferð var 222 kb. riffill og hugmyndin að kíkja eftir gæsum.
Bói stoppaði bílinn við Eyraland þar sem foreldrar hans Guðjóna Friðriksdóttir hálfsystir pabba og Magnús Sigurlásson bjuggu, skaust inn einhverra erinda en við „Hvati“ biðum fram í Bronkónum. Sighvatur var í miðjunni og byssan vinstra megin við hann.
Af einhverri rælni fór Sighvatur að handleika byssuna. Þar kom að hann færði hlaupið yfir vinstri fótinn minn, með fingurinn á gikknum. Ég fékk ónotatilfinningu og bað hann að hætta þessu. Hvað, heldur þú að það sé skot í byssunni spurði Hvati, færði byssuna af fætinum mínum, opnaði hólfið þar sem skotin voru sett í og sá ekki í patrónu svo hann lokaði hólfinu og tók í gikkinn.
Það kvað við hár hvellur og bíllinn sunkaði niður hægra megin. Það hafði sem sagt verið skot í byssunni sem fór í gegnum gólfið og í hægra framdekkið.
Bói kom þjótandi út skelkaður eðlilega, eins og við. Hann skipaði okkur út úr bílnum og rauk í að skipta um dekk.
Ég veit ekki hvort neinn tók eftir þessu aðrir en við, en það varð ekkert úr veiðiferðinni að þessu sinni

Steini og nýi bíllinn

Um haustið 1974 þegar ég fór í 3ja bekk á Menntaskólanum að Laugarvatni, var Steinar Sigurðsson, a.la. Steini Smæl vinur minn mættur frá Ólafsvík á eigin bíl, sem hann hafði unnið fyrir um sumarið. Það voru ekki margir nemendur á eigin bílum á þessum tíma þannig að þetta var stórbrotið.
Fyrstu helgina sem við vorum í skólanum um haustið var auðvitað gaman að hitta bekkjarfélagana og sumir soldið „að fá sér“ og svona. Ég var svo imponeraður yfir bílnum að ég sakk upp á því við Steina að við tækjum smá bíltúr og prófa.
Steini lét til leiðast og af því ég var nánast ekkert búinn að fá mér (man ekki hvort nokkuð) en hann nokkuð og af því ég var að kynnast bílnum var úr að ég ók. Við fórum inn í Dal og allt gekk vel. Á leiðinni til baka heimtaði Steini að taka við akstrinum.
Ég gat lítið gert við því, eða mér fannst það ekki og við skiptum um sæti. Steini ók greiðlega, fram hjá vistunum á ML og stefndi upp á Lyngdalsheiði og ók frjálslega. Þegar við vorum komnir nokkra km. inn á heiðina kom kröpp vinstri beygja og strax á eftir kröpp hægri beygja. Við náðum fyrri beygjunni en ekki þeirri síðari.
Bíllinn fór út af rakst í stein og valt, mig minnir heilan hring og skemmdist talsvert. Við slösuðumst ekki, en mikið var leiðinglegt að þetta skyldi gerast.
Daginn eftir var bíll Steina sendur í burt til viðgerða og kom ekki aftur minnir mig.
Meðfylgjandi er mynd frá ML.
Stúdentamyndin er af bekknum mínum sem útskrifaðist 1976. Steini er annar frá hægri í næst efstu röð, við hlið Gunna Gunn okkar góða félaga.
Mynd af nokkrum félögum sýnir samheldni og vinskap sem ríkti almennt.
Svo er það skólahljómsveitin Lótust sem forframaðist og spilaði fyrir almennum böllum á Austurlandi sumrin 1974 og 1975 enda trommarinn Guðmann, stallari vor, frá Eskifirði. Hitti hann einmitt í sumar sælla minninga.
Með góðri kveðju til ML félaganna.

Baker og Hérðaskólinn að Laugarvatni

Eina bjarta sumarnótt á ML, væntanlega vorið 1975, kl. 2 eða svo, datt okkur vini mínum Heimi Ásgeirssyni, a.la. Baker frá Neskaupsstað, í hug að spennandi væri að heimsækja meyjar á Héraðsskólanum. Þetta var að sjálf sögðu vond hugmynd af ýmsum ástæðum, en við vorum ekki alveg á því þá.Við höfðum ekki prufað þetta hvorki fyrr né síðar. Það var ekki mikill samgangur milli ML og Héraðsskólans, en svona hugmynd getur litið vel út á vornóttum sem þessum til dæmis ef menn eru „búnir að fá sér“ soldið.Héraðsskólinn er ekki árennilegur til inngöngu þegar allt er harðlæst og bannað að opna að innan. Við ákváðum að reyna að príla af handriði sem er við kjallaratröppur við hlið skólastjóraíbúðarinnar og teygja okkur upp á svalirnar og fara þar inn um hliðardyr.Ég var betur á mig kominn líkamlega en Baker og fór á undan og náði upp á svarlirnar. Svo var hugmyndin að ég myndi hjálpa honum upp. Hann var bæði styttri og digrari en ég og í ljós kom að hann var eitthvað slappur líka og linur til átaka að þessu sinni. Við héldumst í hendur ég uppi og hann standandi á handriðinu við kjallaratröppurnar. Ég gerið mitt besta til að toga hann upp með annari hendinni og um leið og ég hélt mér í svalahandriðið með hinni. Ég náði að lyfta Baker eitthvað áleiðis en engan veginn að koma honum upp á svalirnar. Smám saman þrutu kraftar og ljóst varð að þetta tækist ekki. Ég varð að gefa eftir og láta hann siga niður áleiðis á handriðið við kjallaratröppurnar.Kraftarnir í hendinni voru uþb. að þverra er fætur Heimis snertu handriðið á leiðinni niður og ég varð að passa mig að detta ekki á eftir honum. Þegar ég sleppti af honum hendinni vildi ekki betur til en svo að Baker missti jafnvægið og datt niður um eina hæð neðst í kjallararöppurnar. Ég sá mér til skelfingar á eftir vini mínum detta niður, hélt hann væri amk. stór slasaður og dreif mig niður. Baker staulaðist hins vegar á fætur óbrotinn og nánast heill. Var etv. í góðu formi til að detta, linur og mjúkur.Við héldum heim á leið og reyndum að láta ekki sjá okkur. Hugmyndin um inngöngu í Héraðsskólan leit ekki lengur vel út og við skömmuðumst okkar fyrir að hafa staðið í þessu.En mikið var það ánægjulegt að hvorugur okkar slasaðist við þessa „fífldjörfu“ tilraun.Bakers nafnbótina dró Heimir af rauðum háralit sem minnti á Ginger Baker, trommara hinnar goðumlíku hljómsveitar Cream, sem hafði verið vinsælust nokkrum árum fyrr.Meðfylgjandi mynd er af Heimir nokkrum árum síðar. Hann hafi verið með hár niður á herðar en er þarna búinn að láta klippa sig pg að sýna Vigdísi forseta vörur hafa verið hans æfistarf með einum eða öðrum hætti og sem reyndar eru helsta undirstaða velsældar þjóðarinnar hingað til.Hitti Heimir á Neskaupsstað í sumar þar sem hann stjórnar stæstu fiskfrystigeymslu á landinu.

Frá blogginu

Nýr póstur til þín

Um mig

Hæ, ég er Guðjón. Viðskiptafræðingur sem lengst af hefur verið stjórnandi í stofnunum og fyrirtækjum. Ég vinn nú heima við eigin rekstur og stjórna tíma mínum sjálfur. Ég tek þátt í félagsstöfum, svo sem hjá Rótarý, Neytendasamtökunum og einnig í frjálslyndum stjórnmálasamtökum, eftir því sem hentar mér. Ég skrifa stundum greinar og pistla um það sem mér finnst áhugavert og birti á hinum ýmsu miðlum svo sem félagsmiðlum og blöðum! Read more

Verum í sambandi