Hvenær ræna skiptastjórar bú?

Skipan skiptastjóra fyrir þrotabú Wowair var nýlega gagnrýnd af kven- lögmönnum sem töldu gengið fram hjá sér.  Heyrst hefur að klíkuskapur og jafnvel umbunir (beinar og óbeinar) hafi áhrif á hvaða lögmenn fá stærri bú til skipta.

Eftirfarandi er dæmi um skiptastjóra sem tók sér 6,6 m.kr. fyrir að skipta einföldu dánarbúi sambýlisfólks, sem í ljós kom að er um 3x hærra en eðlilegt má telja.

Svo virðist sem umsjón og eftirlit með störfum skiptastjóra sé í fornu fari sérhagsmuna og leyndarhyggju.

Dánarbúið hennar Gunnu frænku

Guðrún Lilja Magnúsdóttir móðursystur mín lést barnlaus árið 2012.  Bú hennar var einfalt dánarbú barnlauss sambýlisfólks og enginn ágreiningur meðal erfingja sem voru eftirlifandi systkin og börn látinna systkina.  Óskað var opinberra skipta undir árslok 2012. Í janúar 2013 tók Héraðsdómur Reykjavíkur búið til opinberra skipta og skipaði skiptastjóra.

Árið 2015, lauk (fyrri) skiptum.  Eignir Guðrúnar töldust nettó um 21 milljón kr. Þar af reiknaði skiptastjóri sér rúmar 5 m.kr.  Erfingjum þótti skiptin hafa tekið óeðlilega langan tíma og skiptakostnaður vera óeðlilega hár. Enginn lagði þó fram formlega kvörtun.

Vorið 2017 boðaði skiptastjórinn óvænt aftur til skiptafundar því að „eftir að fyrri skiptum lauk bárust frá Arion banka upplýsingar um rúmlega 3ja m.kr. verðbréfaeign“. Að sögn skiptastjórans var ástæða seinkunarinnar klúður bankans. Skiptastjórinn bætti af þessu tilefni 1,3 m.kr við skiptakostnaðinn og sem varð samtals (5,3+1,3) 6,6m.kr.  Á þessum síðari fundi var kvörtun yfir háum skiptakostnaði færð til bókar.

Tveimur dögum síðar upplýsti Arion banki aðspurður að skiptastjórinn hefði fengið vitneskju um verðbréfaeignina strax í janúar 2013 með tölvupósti á netfangið sitt hjá lögmannsstofunni.  Það var því yfirsjón skiptastjórans en ekki bankans að verðbréfaeignin var ekki tekin með í fyrri skiptunum í júní 2015.  Samt tók skiptastjórinn sér viðbótarþóknun og laug til um atvik.

Daginn eftir óskaði erfingi eftir því við skiptastjórann að hún léti viðbótar skiptakostnaðurinn 1,3 m.kr. niður falla.  Því hafnaði lögmaðurinn fjórum dögum síðar og tilkynnti samdægurs Héraðsdómi Reykjavíkur um að skiptum væri lokið og gat ekki ágreinings.

Af þessu tilefni báru erfingjar það undir ýmsa lögmenn hvað þeir teldu eðlilega þóknun til skiptastjóra fyrir skipti á búi eins og þessu.  Töldu þeir að skiptakostnaður hefði í mesta lagi átt að vera 1,3 til 2 milljónir króna en ekki 6,6 m.kr.

Þremur dögum síðar kvartaði erfingi því til Héraðsdóms Reykjavíkur vegna hins háa skiptakostnaðar með ítarlegum upplýsingum um málavexti.

Nokkrum vikum síðar svaraði Héraðsdómur Reykjavíkur að þar sem kvörtunin hefði komið meira en viku eftir að skiptum lauk „verða aðfinnslur ekki hafðar uppi gegn skiptastjóra. Erindi þitt verður því ekki tekið til frekari afgreiðslu.“

Kjarni máls og möguleg úrræði

Fyrir lögmenn er verðmætt að fá gott bú til skipta, ekki síst ef þeir geta ráðið þóknun sinni sjálfir.  Lögmenn eru misjafnir, sumir sanngjarnir, aðrir óskammfeilnir ruddar sem svína á fólki í skjóli kunnáttuleysis neytenda/umbjóðenda sinna í lögum og taka sér margfalda þóknun og komist flestir upp með það.

Uppfæra þarf starfsaðferðir dómstóla varðandi umsjón skipta.  Úthlutun búa þarf að byggist á faglegum, gagnsæjum vinnubrögðum, þóknun þarf að vera hæfileg og raunverulegt eftirlit með því að allt gangi vel fyrir sig.

Þeir sem óska eftir opinberum skiptum eða sæta þeim ættu að fá leiðbeiningar hjá viðkomandi dómstóli um ferlið framundan.  Fræða þarf fólk um er hvers þarf að gæta í samskipti við skiptastjóra, hversu langan tíma eðlilegt er að skipti taki, hverjar eru eðlilegar þóknanir og hvernig á að bera sig að við kvartanir.  Hugsanlega ættu dómstólar að bjóða út sett af skiptum,  öðru hverju til að fá sanngjörn verð sem skiptaþolar/neytendur fá að njóta.

Útgangspunkturinn þarf að vera að gæta sanngirni milli allra viðkomandi það er neytenda og lögmanna.

Grein í Morgunblaðinu 9.5.2019