HEI – Tætum niður biðlistana

Bið eftir liðskiptiaðgerð skerðir lífsgæði fólks verulega því hún kemur niður á vinnuafköstum og daglegu lífi með takmörkum á hreyfigetu og verkjum. Þetta er átakanlegt og þetta er í mörgum tilvikum óþarfi. 

Hér á landi eru rúmlega 700 manns á biðlista eftir gervi mjaðmalið og rúmlega 300 eftir hnjálið. Langflestir þurfa að bíða mánuðum saman og jafnvel á annað ár þegar allt er talið.

Þeir sem þurfa að bíða eftir aðgerð í 3 mánuði eða lengur eiga rétt á greiðsluþátttöku Sjúkratrygginga Íslands (SÍ) til að sækja viðkomandi heilbrigðisþjónustu hjá viðurkenndum sjúkrastofnunum erlendis.  Greiðsluþátttaka SÍ nær til alls kostnaðar sem tengist aðgerðinni og ferðinni fyrir sjúkling og fylgdarmanneskju, samkvæmt Evrópsku regluverki sem Ísland er aðili að, sem betur fer. 

Þar sem ljóst er að biðin verður meiri en 3 mánuðir er óþarfi að bíða með að sækja um til SÍ, það má gera strax og þörfin fyrir aðgerð er ljós.  Nafn sjúklingsins þarf ekki að standa á neinum skriflegum biðlista í landinu, enda er slíkur biðlisti ekki til staðar.  Það nægir að læknir sem þekkir vandamálið meti það svo að viðkomandi sjúklingur hafir þurft, eða munir þurfa að bíða í 3 mánuði eða lengur frá því að vandamálið kom upp. Þá getur hann sótt um greiðsluþátttöku til SÍ fyrir hönd viðkomandi sjúklings, án tafar.

Gott er sá bæklunarlæknir sem þekkir stoðkerfisvandamál viðkomandi sæki um fyrir hann til SÍ. En fyrsta bið margra er eftir því að komast að hjá bæklunarlækni.  Því er gott að vita að heimilislæknir getur einnig sótt um fyrir fólk.  SÍ gerir ekki kröfu um að bæklunarlæknir sæki um en „kann að óska eftir meiri rökstuðningi ef umsóknin kemur frá heimilislækni“ en ekki bæklunarlækni.  Bið eftir heimilislækni er yfirleitt ekki löng og því kann að henta betur að leita til heimilislæknis. Það kann að vera að sumir heimilislæknar telji enn að þeir geti ekki sótt um til SÍ, en það liggur fyrir skriflega frá SÍ að svo er enda ekkert í regluverkinu sem takmarkar umsóknir við bæklunarlækna.

Það er matsatriði sjúklings, eftir atvikum í samráði við sína heilsugæslustöð, til hvaða læknis rétt er að snúa sér til að biðin verði sem skemmst.  Umsóknir um greiðsluþátttöku SÍ þurfa að berast SÍ á sérstöku formi sem læknar og aðrir geta nálgast á vef SÍ.  Það tekur ekki langa stund fyrir lækni að sækja um fyrir hvern sjúkling. Röntgenmynd og fleiri gögn þurfa samt að fylgja umsókninni.

Hjá SÍ fundar sú nefnd sem metur umsóknir yfirleitt á 2ja vikna fresti.  Stundum þarf nefndin viðbótar gögn og þá getur afgreiðsla dregist en almennt má vænta niðurstöðu eftir 2-3 vikur frá því umsókn berst SÍ.

HEI – Medical Travel leiðbeinir fólki um val á traustum, heppilegum spítala, umsókn um greiðsluþáttöku SÍ, bókanir á flugi, hjólastólaþjónustu, hóteli og fleira sem þarf ef fólk vill sækja sér heilbrigðisþjónustu erlendis. 

Þjónusta HEI er sjúklingum að kostnaðarlausu.

Grein sem birtist í Morgunblaðinu 27.12.19