Hálendisvegir, arðsemi og áhrif

Vönduðum hálendisvegum eftir vel völdum leiðum fylgja margir kostir.  Þeir stytta vegalengdir milli landshluta.  Þeir opna fleirum möguleika að upplifa sérstæða fegurð miðhálendis Íslands.  Þeir eru mikilvæg varaleið milli landshluta. Þeir eru mjög hagkvæmir og þá má kosta af veggjöldum án útgjalda fyrir skattgreiðendur.

Mynd af hálendinu
Loftmynd af miðhálendi Íslands með teiknuðum veglínum hálendisvega.

Hugmyndir um hálendisvegi um Sprengisand og norðan Vatnajökuls eru ekki nýjar af nálinni.  Trausti Valsson, skipulagsfræðingur og prófessor emeritus og fleiri hafa fjallað um hana.  Þótt hugmyndin sé heillandi er spurning hvort hún er raunhæf.

Haustið 2017 kannaði ég fyrirliggjandi upplýsingar um hálendisvegi og fannst vanta meiri upplýsingar um arðsemi.  Í framhaldinu tók ég mig til við að greina aðsemina sjálfur eftir föngum og til varð skýrslan Hálendisvegir, arðsemi og áhrif og tengt útreikningsskjal.  Af því hér er um stórt umhverfismál að ræða  kem ég inn á þann þátt í skýrslunni.

Greinin Hálendisvegir, arðsemi og áhrif, sem byggð er á skýrslunni kom í Mbl. 17. desember 2017.  Nokkur skoðanaskipti og ábendingar komu í framhaldinu.

Ómar Ragnarsson, fjölmiðlamaður, umhverfisverndarsinni og listamaður með meiru, spyr í grein í Mbl. 19.12.2017 Getur landleið milli staða orðið styttri en stysta loftleið?  Hann bendir þar á að stytting leiðarinnar REY-EGI var ofmetin forsenda og segir sína skoðun á hálendisvegum.   Leiðrétt stytting er 171 km og ferðatími styttist um 2 klst en ekki um 3 klst.

Sveinn Tyrfingsson, bóndi og um tíma einn af aðstandendum Versala, gisti- og veitingaþjónustu á Srengisandsleið, benti á að þægilegt er að leggja uppbyggða vegi um Sprengisand þar sem undirlagið er gott og auðvelt um efnisöflun.  Stofnkostnaður er samkvæmt þessu lægri en miðað var við.

Búið er að leiðrétta útreikningana og skýrsluna samkvæmt þessu.  Arðsemi er áfram mjög mikil og megin niðurstöður úttektarinnar þær sömu.

Athugasemdir Ómars og fleiri um verðmæti ósnotrinnar náttúru eru vissulega mikilvægar.  Hugmyndin með hálendisvegum er meðal annars að gera þessi verðmæti aðgengileg þannig að þau nýtist.

Tilvísarnir:
Hálendið – Iceland.  Vefsíða áhugasamra aðila um miðhálendisþjóðgarð.

Efnahagslegur ábati af þjóðgörðum, Halldóra Hreggviðsdóttir, 24.01.2018
Hálendisvegir, arðsemi og áhrif. Grein GS í Mbl. 17.12.2017.
Getur landleið milli staða orðið styttri en stysta loftleið?  Grein Ómars Ragnarssonar í Mbl. 19.12.2017
Hálendisvegir, skaðsemi og eyðilegging  Grein Ólafs B. Schramí Mbl. 27.12.2017
Hálendisvegir og hálendisþjóðgarðar Grein GS í Mbl. 28.12.2017
Uppbyggður vegur yfir Bárðarbungu?   Grein Ómars Ragnarssonar í Mbl. 5.1.2018
Sprengisandsleið – Mat á umhverfisáhrifum. Vegagerðin, Helga Aðalgeirsdóttir og Sóley Jónasdóttir.  10.2014
Mikil tækifæri með hálendisvegi norðan Vatnajökuls. Trausti Valsson, skipulagsfræðingur, 12.11.2013
NÝR KJALVEGUR, Mat á þjóðhagslegri arðsemi.  Rannsóknar- og þróunarmiðstöð Háskólans á Akureyri.  02.2007.
Hugmynd að fyrsta heildarskipulagi Íslands.  Trausti Valsson, skipulagsfræðingur. Bók 1987.