Framsækin orkustefna getur skilað miklu

Á Íslandi má framleiða mörg þúsund megavött af raforku með vindmillum án verulegra umhverfisáhrifa annarra en sjónmengunar og slíkra áhrifa.   Framleiðslukostnaður vindorku hefur lækkað svo mikið undanfarin ár að hann nálgast kostnaðinn við vatnsorku og jarðvarma.  Góðum virkjanakostum í vatnsafli og jarðvarma fer fækkandi og því er kærkomið að margir staðir á landinu henta vel fyrir vindorkugarða. 

Þegar er kominn fram áhugi á að framleiða hér um 1000 MW af rafmagni með vindorku og ljóst að áhuginn mun bara vaxa. Útlit er fyrir að auðveldlega verði hægt að fullnægja fyrirsjáanlegri innlendri eftirspurn eftir raforku til langrar framtíðar og auk þess ætti að verða nóg eftir til útflutnings um sæstrengi ef til kemur. 

Hér er um risastórt mál að ræða fyrir þjóðina og því mikilvægt að horfa strax á stóru myndina og marka framsækna orkustefnu. Hér eru nokkur atriði í því sambandi.

Skilgreina þarf umhverfis og auðlindagjald fyrir orkuframleiðslu hvort sem er með vatni, hita eða vindi.  Í Noregi er þegar í dag lagt á auðlindagjald sem nemur um 1/3 af hagnaði orkuframleiðenda. Reglur EES kalla nú á samræmt auðlindagjald, og  hefur það verið til athugunar í starfshópi ráðuneyta í nokkur ár og mikilvægt að fá álit hans sem fyrst. Í tilfelli vindorku ætti að vera um að ræða umhverfisgjald fyrir aðgang að þeim takmörkuðu gæðum að fá heimild til að setja upp vindorkugarða þrátt fyrir þá sjónmengun og önnur áhrif sem þeir hafa.  Umhverfis- og auðlindagjaldið mun geta numið a.m.k. tugum milljarða króna á ári.

Þessi mynd birtist í Morgunblaðinu 16.5.2019

Gera þarf rammaáætlun og skipuleggja vindorkugarða. Skilgreina þarf heppilegustu svæðin á landinu fyrir vindorkugarða út frá umhverfissjónarmiðum og tengingum við orkuflutningskerfi Landsnets. Taka þarf tillit til mögulegrar tengingar við raforkukerfi Evrópu um sæstreng. Margir landeigendur t. d. sveitarfélög munu vilja að þeirra land verði skilgreint sem heppilegt svæði vegna teknanna sem vænta má. Mikilvægt er að eignarhald Landsnets sé sem mest óháð orkuframleiðendum til að minnka hættu á því að einum sé hyglað umfram annan, eins og reglur Orkupakka 3 kveða á um, þó undanþága hafi fengist frá því. Vatnsaflsvirkjanirnar okkar nýtast vel til að jafna sveiflur í framleiðslu vindorkuvera.  Með tilkomu verulegrar vindorkuframleiðslu og með því  að stórauka afl vatnsaflsvirkjananna, sem kostar brot af meðalaflkostnaði nýrra virkjana, má spara vatn í miðlunum þegar vindorkan er á fullu en nýta það þeim mun betur þegar hægir á vindinum.  Tenging við orkukerfi Evrópu í framtíðinni nýtist ef til kemur líka til að jafna út sveiflur.

Mikilvægt er að koma á innlendum uppboðsmarkaði rafmagns þar sem verð er að breytast á hverri klst eða innan klst, til að stýra álagi á raforkukerfið, og ofangreindu samspili breytilegs vinds og vatns.  Þá er unnt að nýta betur þá raforku sem er til staðar, auk þess sem slíkur markaður er skilvirk leið til virkra viðskipta og að leiða fram raunverð orkunnar á hverjum tíma. Hönnun markaðarins þarf að taka mið af sérstöðu íslenska raforkukerfisins og beita þarf viðurkenndum  samkeppnissjónarmiðum til að efla virkni orkumarkaðarins.

Kanna þarf kosti og galla, kostnað og ábata sæstrengja til fulls.  Ef þeir reynast raunhæfir og hagkvæmir eins og margt bendir til mun verðmæti hérlendra orkuauðlinda aukast.  Svipað og gerðist með sjávarútvegsauðlindina þegar við fórum að geta flutt aflann út ferskan.  Lítið er kvartað undan háu fiskverði því fólk veit að hátt heimsmarkaðsverð á fiski hefur skapað efnahagslegar framfarir á Íslandi.  Svipað mun gilda um raforkuna ef útflutningur verður fær.  

Vegna þess hversu fjárfrek og áhættusöm lagning sæstrengs er, er takmarkaður vilji til að opinberir aðilar standi að verkefninu að öðru leyti en mögulega að heimila það og gera viðeigandi ráðstafanir innanlands. Hins vegar ef einkaaðilar myndu vilja leggja í áhættuna við sæstreng og njóta þá arðseminnar ef vel gengur, kæmi til greina að bjóða verkefnið út alþjóðlega, sem einkaframkvæmd.  Hugsanlega mætti hafa ákvæði um að verkefnið borgaði „tengigjald“ til að fjármagna nauðsynlegar framkvæmdir Landsnets  við að flytja orkuna að landtökustað strengsins.  Þá kemur sér vel að hér gildi samevrópskar reglur bæði um flutninginn og orkumarkaðinn.

Þjóðhagslegur ábati vegna beislunar vindorkunnar og hækkunar raforkuverðs ef til tengingar við raforkumarkað Evrópu kemur getur orðið gríðarlega mikill.  Raforkuútgjöld meðalheimilis munu hækka lítillega, segjum um  10.000kr á ári en þjóðhagslegur ábati gæti hins vegar numið um 1 milljón króna á ári mælt á heimili.   Tekjur ríkis og sveitarfélaga munu aukast um marga tugi milljarða króna og verða a.m.k. álíka miklar og af ferðaþjónustunni.

Það er því ekki eftir neinu að bíða að móta framsækna orkustefnu til framtíðar og hefjast handa við aðgerðir.  Ekki mun af veita því hér skortir fé í heilbrigðiskerfið, samgöngur og nánast öll verkefni sameiginlegu sjóðanna. 

Höfundar:

Egill Benedikt Hreinsson, rekstrarverkfræðingur og prófessor emeritus í raforkuverkfræði

Guðjón Sigurbjartsson, viðskiptafræðingur og f.v. fjármálastjóri Rafmagnsveitu Reykjavíkur