Kaldaðarnes flugvöllur

Góð lending á Suðurlandi

Samfélagslegur ábati af fluglest REY-KEF, flutningi miðstöðvar innanlandsflugsins á Keflavíkurflugvöll og af Suðurlandsflugvelli á bilinu 200 til 300 milljarðar króna og má framkæma í einkaframkvæmdum án útgjalda og áhættu fyrir skattgreiðendur.

Þetta eru líka umhverfisvænir kostir og skapa stóraukið ferðaöryggi.

Góð lending á Suðurlandi. Grein í Mbl. 7.11.2019

10 milljónir manna fara árlega um Keflavíkurflugvöll og talið að fjöldinn muni tvöfaldast á næstu árum. Varaflugvallamál eru hins vegar í svo miklum ólestri að það er bæði hættulegt og óhagkvæmt.

Reykjavíkurflugvöllur hefur ekki nægilega langar flugbrautir til að gegna hlutverki varaflugvallar fyrir alþjóðaflugið. Varaflugvellirnir á Egilsstöðum og Akureyri eru heldur langt frá Keflavík, hafa ónógan búnað og of lítil flughlöð. Skotland er langt undan þannig að flugvélar á leið til Íslands þurfa talsvert aukaeldsneyti til að ná þangað ef þörf gerist. Það minnkar aðra burðargetu og þar með tekjur flugsins.

Það þarf því nýjan varaflugvöll hæfilega langt frá Keflavík, á öðru veðurfars- og áhættusvæði hvað varðar eldgos, jarðskjálfta og aðrar náttúruhamfarir.

Hvassahraun hefur ýmsa ágalla
Bent hefur verið á Hvassahraun sem heppilegan stað fyrir nýja miðstöð innanlandsflugsins í staða Vatnsmýrarinnar. Hagfræðistofnun HÍ mat árið 2015 samfélagslegan ábata af því að sameina miðstöð alþjóða- og innanlandsflugsins í Hvassahrauni og byggja í staðinn upp Vatnsmýrina á 82-123 milljarða króna. Sá ábati felst að mestu í verðmæti byggingarlandsins sem losnar í Vatnsmýrinni og samrekstri við alþjóðaflugið í Keflavík.

En Hvassahraun er aðeins um 20 km frá Keflavíkurflugvelli, á sama nesinu, sömu megin við Höfuðborgarsvæðið, tengt því um einn og sama veginn. Staðirnir eru á sama veðurfars- og náttúruhamfara svæði sem þýðir að ef eitthvað er að á Miðnesheiði er hætt við að það sama eigi við um Hvassahraun og öfugt. Það er því áhugavert að skoða aðra kosti.

Fluglest REY-KEF og innanlandsflugið til Keflavíkur
Með háhraðalest REY-KEF gæti miðstöð innanlandsflugsins flust til Keflavíkur.
Hagkvæmni háhraðalestar hefur verið vandlega metin. Lestin er talin hagkvæmt í einkaframkvæmd, án ríkisábyrgðar auk þess sem hún er umhverfislega mjög jákvæð. Svo væri hún þægileg og aðlaðandi aðkoma að landinu sem mun auka hróður þess á alþjóðavettvangi.
Ferðatíminn verður aðeins um 20 mínútur og fargjald stórnotenda (Lesist: heimamanna sem myndu nota lestina oft) lágt. Lestin mun sameina Suðurnes og Höfuðborgarsvæðið atvinnu- og búsetulega. Samfélagslegur ábati hraðlestarinnar er metinn á um 40-60 milljarðar króna.

Ef miðstöð innanlandsflugsins flyst á Keflavíkurflugvöll styttist ferðatíma landsbyggð-útlönd og ferðakostnaður lækkar. Það mun fjölga þeim sem nota innanlandsflugið í tengslum við alþjóðaflugið og fjölga ferðamönnum á landsbyggðinni.

Suðurlandsflugvöllur er málið
Helsta aðdráttarafl landsins er náttúran. Gullni hringurinn á Suðurlandi er vinsælastur. Um 90% ferðamanna til Íslands fara um Suðurland.

Nýr alþjóðaflugvöllur á Suðurlandi fengi hluta af fjölgun ferðamanna og einnig nokkuð innanlandsflug. Suðurlandsflugvöllur væri sérstaklega áhugaverður kostur fyrir ferðamenn sem komið hafa áður og vilja fara beint út í náttúruna án viðkomu á Höfuðborgarsvæðinu og auðvitað Sunnlendinga og Austfirðinga. Líklega mætti byggja og reka slíkan flugvöll í einkaframkvæmd án útgjalda og áhættu fyrir skattgreiðendur. Það skortir reyndar hagkvæmniútreikninga eins og gerðir hafa verið fyrir fluglestina.

Suðurlandsflugvöllur myndi styrkja Suðurland og færa nýtingarsvæði ferðamanna lengra til austurs og norðurs. Þegar landið verður orðið enn vinsælla sem ferðamannaland verða Egilsstaðir og Akureyri líka hagkvæmir áfangastaðir fyrir alþjóðflug. Góðir hlutir gerast hægt.

Góð lending
Samtals verður samfélagslegur ábati af ofangreindu það er fluglest REY-KEF, flutningi miðstöðvar innanlandsflugsins á Keflavíkurflugvöll og Suðurlandsflugvelli á bilinu 200 til 300 milljarðar króna, án útgjalda og áhættu fyrir skattgreiðendur.
Hér er líka um mjög umhverfisvæna kosti að ræða og stóraukið öryggi fyrir ferðalanga.
Það er því ekkert að vanbúnaði að setja stefnu til framtíðar og hefja undirbúning.

Nóvember 2019
Guðjón Sigurbjartsson

2 comments

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.